logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Fréttir úr Krikaskóla

30/03/2020

Skólahald í Krikaskóla hefur gengið vel og áætlanir okkar staðist.  Við höfum skipt skólanum upp í svæði og börnunum er skipt í litla hópa til að mæta tilmælum um sóttvarnir.  Hver árgangur mætir annan hvern dag í skólann.  2ja til 5 ára hópurinn samkvæmt sínum vistunartíma en opnun hefur verið stytt um 30 mínútur.  Við lokum því kl. 16:30 daglega.  6 til 9 ára hóparnir koma til skóla kl. 9 og eru til 14:00 (1. og 2. bekkur) og til 15:00 (3. og 4. bekkur).  Frístund er starfandi fyrir börnin í 1. og 2. bekk samkvæmt skráningum til kl. 16:00.  Frístundin heldur sömu hópaskipan og í skólastarfinu og er skipulögð þannig að starfsmenn frístundar fara inn á svæðin sem börnin hafa verið á yfir daginn.  Morgunfrístund er ekki í boði að svo stöddu.

Barnahóparnir skiptast á í útiveru, fataklefum og hittast ekki yfir daginn.  Öllum sameiginlegum svæðum hefur verið lokað í skólanum og eru því ekki notuð.  Leik- og námsefni er ekki notað daglega heldur fer í "sóttkví" reglulega.  Við sótthreinsum alla snertifleti nokkrum sinnum yfir daginn, stundum handþvott, ásamt spritti og hönskum þar sem við á.  Matur er færður til barnanna á hverju svæði frá eldhúsinu, það á við um morgunverð (fyrir leikskólabörnin), ávaxtabita, hádegisverð og nónhressingu.  Börnin hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og tími hefur verið gefinn til að nálgast áhyggjur þeirra og spurningar eftir aldri og þroska.  Þau sakna vina sinna sem þau hitta ekki í skólanum og við finnum að spennan yfir nýjum leiðum er að minnka hjá barnahópnum.  Því þurfum við að vera hugmyndarík og mæta börnunum þar sem þau eru stödd með fjölbreyttum viðfangsefnum og verkefnum.

Stefnan er að halda áfram samkvæmt sömu áætlun og síðustu tvær vikurnar. Við í skólanum óskum eftir því að foreldrar hafi samband við skólann sjái það fram á breytingar á forföllum og/eða leyfum sem áður hafa verið boðuð.  Endilega tilkynnið einnig almenn veikindi eins og venjulega.  

Eins og sóttvarnalæknir og landlæknir hafa bent á þá  eru foreldra hvattir til að senda heilbrigð börn sín í skóla. Nám er mikilvægt og það félagslega aðhald og virkni  sem skólinn veitir skiptir börn máli á þessum tímum.  Aðstæður hjá fjölskyldum geta verið mismunandi hverju sinni og hvert og eitt foreldri  tekur ákvarðanir sem er fjölskyldunni og barninu fyrir bestu. Í Krikaskóla höfum við lagt okkur fram um að koma til móts við fjölmargar óskir foreldra á hverjum degi svo framarlega sem þær eru innan þess sem sóttvarnir leyfa okkur.  

Heimanám hefur tekið breytingum hjá okkur og munum við leggja okkur fram við að hafa það lifandi og skemmtilegt með sömu áherslum og Krikaskóli starfar almennt.  Kennarar og deildarstjórar verða í sambandi við ykkur eftir því sem tök eru á hverju sinni.  Nú eru deildarstjórar leikskóla að skipuleggja foreldraviðtöl en þau verða símleiðis að þessu sinni.

Í dag vinnur allt samfélagið og þar með skólinn á neyðarstigi almannavarna og kennarar og starfsfólk skóla eru framlínufólk í núverandi aðstæðum. Við förum eftir þeim tilmælum sem okkur berast frá almannavörnum, sóttvarnalækni og landlækni við skipulag á skólastarfseminni.  Á heimasíðu almannavarna höfuðborgarsvæðisins birtast allar upplýsingar sem sendar eru til sveitarfélaga og skóla,  www.ahs.is.

Það mikilvægt að hafa í huga að aðstæður geta breyst með stuttum fyrirvara bæði innan og utan skólans.  Við skipuleggjum viku í senn en tökum einn dag í einu.  Mjög mikilvægt er að við hlúum vel hvert að öðru í þessari miklu óvissu.  Áhersla okkar á að aðeins þeir sem eru heilbrigðir mæti til skóla hefur áhrif á forföll og gætu haft áhrif á skólastarfið.  Við munum upplýsa foreldra ef til slíks kemur.

Takk kæru foreldrar fyrir allar hlýju kveðjurnar sem skólastjóri hef fengið að koma áleiðis til starfsfólks.  Það er mikilvægt og í raun ómetanlegt að finna samhug í skólasamfélaginu okkar á tímum sem þessum.  Börnin hafa staðið sig vel og allir sýnt nýjum reglum mikinn skilning.  Það er ekki síst vegna mikilvægs undirbúnings foreldra og umræðu heima fyrir sem er okkur stuðningur í breyttu skólastarfi.  Munum að þetta er tímabundið ástand og við hlökkum öll til að heyra aftur samsöng allra árganga á föstudagsmorgni í Krikaskóla.

 

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira