logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Skólastarfið

Námsumhverfi í anda hugsmíðahyggju stuðlar að virkri uppbyggingu þekkingar hjá hverju barni. Við skipulagningu á námi er áhersla lögð á að tengja nýja þekkingu fyrri reynslu barnsins, einnig á samvinnu barna í verki og að tengja viðfangsefni við nærsamfélagið.

Skólastjóri er Viktoría Unnur Viktorsdóttir - viktoria.unnur.viktorsdottir@mosmennt.is
Sviðstjóri er Ágústa Óladóttir - agusta.oladottir@mosmennt.is

Íþróttafjör / Frístundafjör

Börn í 1. og 2. bekk geta tekið þátt í Íþróttafjöri sem er samstarfsverkefni Aftureldingar og Mosfellsbæjar. Þar fá börnin tækifæri til að prófa margvíslegar íþróttagreinar.

Íþróttafjör er aðeins fyrir börn með frístundarvistun og er kostnaður innifalinn í gjaldi frístundarsels.

Fyrir hverja er frístundafjörið?
Fyrir alla krakka í 1. og 2. bekk í gunnskólum Mosfellsbæjar

Af hverju Frístundafjör?
Markmiðið með Frístundafjörinu er að börnin fái að kynnast sem flestum greinum íþrótta og geti í 3. bekk ákveðið hvaða íþrótt þau vilja stunda. Það er ekki markmið Frístundafjörsins að búa til sérhæfða afreksíþróttamenn, heldur að börnin fái að stunda íþróttir í sem fjölbreyttasta formi. Einnig er það markmiðið að börnin myndi sér jákvætt hugarfar í garð hreyfingar og íþrótta hverskonar.

Með markmiðsetningu fyrir Frístundafjörið eru markmið Íþróttasambands Íslands fyrir börn 8 ára og yngri höfð að leiðarljósi:
- Að æfingarnar séu fjölþættar og stuðli að bættum hreyfiþroska. Hér er átt við æfingar sem örva hinar ýmsu skynstöðvar og unnið sé með grófhreyfingar og fínhreyfingar.
- Að þjálfunin fari fram í leikformi.
- Að æfingarnar séu skemmtilegar.
- Að öll börn fái jöfn tækifæri til þátttöku.
- Að fjölgreinafélög sjái til þess að öll börn á þessum aldri hafi tækifæri til að stunda íþróttir með þessum hætti í ódeildaskiptum íþróttaskólum eða námskeiðum á vegum félaganna. 

Hvernig fer þetta fram?
Öll börnin sem skráð eru í frístundasel grunnskólanna fara í Frístundafjör nema foreldrar óski sérstaklega eftir því að þau taki EKKI þátt. Börnin fara tvisvar í viku á föstum dögum, stúlkur á mánudögum og miðvikudögum og piltar á þriðjudögum og fimmtudögum. Fylgt er ákveðinni dagskrá sem börnin velja fyrir hverjar tvær vikur í senn. Með þessum hætti er börnunum kynnt fjölbreytt hreyfing í gegnum leik og auknar líkur eru á að barnið hafi þekkingu og áhuga til að velja við 8 ára aldur þá íþróttagrein sem barnið hefur mestan áhuga á. Með öðrum orðum fjölbreytt úrval af hreyfingu, breytilegt eftir árstíðum og eins verður alltaf í boði útvist/útivera fyrir þau börn sem þess óska.

Hvað er þetta langur tími á dag?
Þetta er um 75 mínútur hvorn dag en gera má ráð fyrir tíma sem fer í ferðir á milli skóla og því er þetta frá kl 13:50 - 15:45 hjá Lágafellsskóla og Krikaskóla en örlítið styttra hjá Varmárskóla þegar tillit er tekið til ferðatíma. Starfsmenn frístundaselja fylgja börnunum á milli.

Hvernig fara krakkarnir niður í Íþróttamiðstöðina að Varmá?
Frístundafjörið verður í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Starfsmenn Frístundaseljanna fylgja börnunum í frístundafjörið. Börnin frá Lágafellsskóla og Krikaskóla fara með rútu og starfsmenn frá Frístundaseli fara með hverjum hópi í rútu og starfsmaður frá Frístundaseli Varmárskóla fylgir einnig þeirra 2 börnum. Börnin eru undir eftirliti allan tímann. Starfsmenn frístundaselja eru með börnunum í Frístundafjörinu og hafa auga með þeim og fylgja þeim aftur til baka.

Hvað kostar Frístundafjörið?
Frístundafjör er innifalið í gjaldi frístundasels. Þau börn sem ekki sækja frístundasel en vilja vera með í Frístundafjöri greiða sama verð eða 300kr. fyrir klukkustundina og er það innheimt í gegnum frístundaselin. Nauðsynlegt er að skila umsókn um vistun í frístundasel til að þau geti tekið þátt í Frístundafjöri. (Hjá Lágafellsskóla þarf að gera ráð fyrir vistun frá skólalokum og þar til barnið kemur til baka ef óskað er eftir samfellu í deginum.) Hægt er að óska eftir að frístundaávísun komi upp í gjald fyrir Frístundasel/Frístundafjör hjá börnum í 1. og 2. bekk og kemur hún þá sem lækkun upp á 2000 krónur á mánuði þar til hún hefur verið fullnýtt og því er best að óska eftir því strax í upphafi vetrar. Þeir foreldrar sem óska eftir að nýta sér þetta fara inn á frístundaávísunina eftir 1. september og haka við Frístundasel viðkomandi skóla. Sumar deildir Aftureldingar munu bjóða upp á auka æfingar utan skólatíma, umfram Frístundafjör (þ.e. eftir klukkan 15:30). Fari barnið á æfingar umfram Frístundafjör, tekur sú deild sitt gjald fyrir þær æfingar sem greiðist til deildarinnar og eru þær æfingar alfarið á ábyrgð foreldra þe að koma börnum til og frá æfingum og tengjast að engu leiti Frístundaseli/Frístundafjöri.

Hvernig fer skráning fram?
Krakkar sem eru skráðir í frístund eru sjálfkrafa skráð í Frístundafjör og er gert ráð fyrir að börn í frístund fari í Frístundafjör tvisvar í viku. Óski foreldri með barn í frístund eftir því að það fari ekki í Frístundafjör þarf að láta forstöðumann viðkomandi frístundar vita með því að senda skilaboð í gegnum íbúagátt undir málin mín.

Hvað með æfingafatnað?
Best er að barnið sé klætt þægilegum fatnaði eins og íþróttagalla eða öðrum álíka fatnaði þá daga sem Frístundafjör er.

Hver heldur utan um Frístundafjörið?
Ráðinn hefur verið yfirþjálfari með íþróttakennaramenntun sem mun sjá til þess að dagurinn gangi vel fyrir sig. Hann mun sjá um alla skipulagningu og samþættingu á milli deilda. Hann starfar í nánu samstarfi við forstöðumenn Frístundaseljanna.


Fæði og hollusta

Mötuneyti Krikaskóla starfar samkvæmt samræmdri stefnu skólamötuneyta í leik-og grunnskólum Mosfellsbæjar í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar.

Í Mosfellsbæ er lögð áhersla á að í skólamötuneytum bæjarins njóti skólabörn fjölbreyttrar fæðu í hæfilegu magni, að matvælin séu rík af næringarefnum, fersk og að þau séu í háum gæðaflokki. Lögð er áhersla á að farið sé eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar hvað varðar fæðuval, næringargildi og skammtastærðir.

Morgunmatur:  Í boði er hafragrautur og Cheerios fjórum sinnum í viku og súrmjólk og Cheerios/Kornflex einu sinni í viku.
Hádegismatur: Leitast er við að hafa sem minnst af unninni kjötvöru. Allar kaldar sósur eru með Ab mjólk og sýrðum rjóma. Alltaf er borið fram grænmeti með matnum. Boðið er upp á gróf brauð sem oftast eru bökuð í eldhúsi skólans.
Ávaxtastund er einu sinni á dag.

Nesti að heiman: Þau börn úr grunnskólanum sem ekki kaupa hádegismat í skólanum geta komið með nesti að heiman. Þau fá ísskáp til afnota í heimilisfræðistofu. Börnin sem koma með nesti að heiman sitja saman til borðs nálægt eldhúsi og heimilisfræðistofu þannig að þau geti verið sem mest sjálfbjarga.


Sérfræðiþjónusta Mosfellsbæjar

Við sérfræðiþjónustu Mosfellsbæjar starfa tveir sálfræðingar í fullu starfi og einn í hlutastarfi. Til þeirra geta foreldrar og uppeldisstéttir leitað vegna ýmissa erfiðleika barna, svo sem erfiðleika við nám, hegðun, samskipti og vegna vanlíðunar af einhverju tagi. 

Meginverkefni:

  • Sálfræðiþjónusta við leik- og grunnskóla.
  • Umsjón með annarri sérfræðiþjónustu í samstarfi við skólafulltrúa.
  • Tengsl við aðrar stofnanir innan og utan bæjarfélagsins.
  • Fræðsla og ráðgjöf til foreldra og starfsfólks skóla.
  • Forvarnarverkefni, þróunar- og nýbreytnistarf.
  • Áætlana- og skýrslugerð og önnur stjórnsýsla.

Starfsmenn:

  • Halldóra Björg Rafnsdóttir, sálfræðingur
  • Helgi Þór Harðarson, sálfræðingur
  • Ragnheiður Axelsdóttir, kennsluráðgjafi
  • Heilsugæsla Mosfellsumdæmis annast skólaheilsugæslu í Krikaskóla.
  • Viðvera hjúkrunarfræðings er á þriðjudögum og föstudögum.
  • Hægt er að ná í hjúkrunarfræðing með því að senda tölvupóst krikaskoli[hja]heilsugaeslan.is eða í síma 578-3400.

Viðfangsefni skólaheilsugæslunnar eru meðal annars skimanir barna í 1 bekk grunnskólans þ.e. 6. ára barna. Í henni felast hæðar- og þyngdarmæling - sjónpróf og heyrnarmæling. Einnig eru börnin spurð nokkurra spurninga varðandi heilsutengdanlífstíl. Það er gert með léttu spjalli.

Hjúkrunarfræðingurinn fer inn til nemendahópa þ.e. á þeirra vinnusvæði og fær nemendur einnig inn í aðstöðu skólaheilsugæslunnar með fræðslu sem byggt er á 6H - heilsunnar sem Heilsugæslan hefur unnið í samvinnu við Lýðheilsustöð (Háin standa fyrir: Hollusta, Hreinlæti, Hvíld, Hreyfing, Hamingja og Hugrekki. Sexið stendur fyrir kynheilbrigði sem farið er inná í eldri bekkjum grunnskólans).

Hjúkrunarfræðingur annast einnig 2 1/2 og 4 ára skoðanir barna í Krikaskóla frá ungbarnavernd Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Hægt er að fá þjónustu talmeinafræðings ef þörf er fyrir og fara umsóknir í gegnum skólastjórnendur.


 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira