logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Um skólann

Krikaskóli
Krikaskóli tók til starfa í júní 2008. Fyrsta starfsárið voru börnin á aldrinum 2ja - 5 ára og skólinn til húsa við Gerplustræti í Helgafellslandi. Næstu tvö árin þar á eftir fjölgaði börnunum stöðugt og börn á aldrinum 6- 9 ára hófu nám í Krikaskóla.

Í mars 2010 flutti skólinn í nýtt húsnæði að Sunnukrika 1. Skólaárið 2017-2018 eru í skólanum 200 börn á aldrinum 2ja-9 ára.

Sköpun er einn af grunnþáttum menntunar og iðkuð á ýmsan hátt í skólastarfinu, auk þess er sótt í þá tónlist, myndlist, leiklist og bókmenntir sem bjóðast og eða tengjast heimabyggð. Læsi í sem fjölbreyttustum skilningi orðsins er lykilatriði í þeirri nálgun. Sjálfbærni er iðkuð með umhverfismennt og börnin læra um samfélagið í samfélaginu. Heilbrigði og velferð er samofin þáttur í skólastarfinu í heilsueflandi bæ. Lýðræði og mannréttindi eru raunveruleg viðfangsefni þar sem gildin; virðing, ábyrgð, umhyggja og framsækni eru áttavitar í allri nálgun. Jafnrétti er í senn markmið og leið í menntun barnanna.

Krikaskóli er opinn frá kl. 7:30-17:00.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:30-15:00.

Tengsl skóla og samfélags

Í skólastefnu Mosfellsbæjar  segir: „Standa verður vörð um möguleika einstaklingsins til að fá að þroskast í grenndarsamfélagi sem einkennist af samstarfi, trausti, velvilja og jafnræði.

Í  skólastarfinu er unnið að því að börnin kynnist:

  • kostum, sérstöðu, séreinkennum og heimamenningu Mosfellsbæjar 
  • lífi og stöfum fólks í heimabyggð
  • sögu og náttúru í heimahögum
  • atvinnu- og lífsháttum íbúanna
  • menningu og menningarverðmætum í heimabyggð og fái að upplifa listviðburði og heimsækja söfn

Unnið er að því að börnin verði læs á umhverfi sitt og samfélag og séu virkir þátttakendur bæði í skólasamféaginu og því samfélagi sem þeir búa í.

Stuðlað er að samstarfi við  þjónustu- og menningarstofnanir í bæjarfélaginu. Því eru heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir kærkomið tækifæri til að skoða, rannsaka, upplifa og vinna úr upplýsingum.

Börnin kynnist og fái að upplifa menningu og listir með h, má þar nefna tónlist, myndlist, leiklist og bókmenntir.

Skapaðar verða aðstæður fyrir börn til að leggja sitt að mörkum til mótunar samfélagsins með þátttöku s.s. í mannúðarverkefnum og þátttöku í umhverfisverkefnum.

Stefnt verður að því að leggja rækt við og skapa tengsl við íbúa skólahverfisins og félagasamtök. Gert er ráð fyrir að aðilar úr grenndarsamfélaginu nýti sér húsnæði og aðstöðu skólans og auðgi þannig skólasamfélagið.

Krikaskóli stefnir að samstarfi við aðra skóla í byggðarlaginu þar sem reynsla, þekking og aðstæður í hverjum skóla getur nýst við uppbyggingu og þróun skólastarfs.

Hlutverk grunnskólakennara

Meginhlutverk kennarans er kennslu- og uppeldisfræðilegt starf með nemendum, að vekja og viðhalda áhuga þeirra á námi, veita þeim handleiðslu á sem fjölbreytilegastan hátt og stuðla að góðum starfsanda og vinnufrið meðal nemenda. Þessu hlutverki má einnig lýsa sem forystu­hlutverki; að vera leiðtogi í námi nemandans. Þetta felur í sér áherslu á að skapa nemendum frjóar og fjölbreytilegar námsaðstæður. Vönduð kennsla, sem lagar sig að þörfum og stöðu einstakra nemenda í skóla án aðgreiningar, eykur líkur á árangri. Mikilvægt er að kennarar vinni saman að menntun nemenda eftir því sem framast er kostur og að kennsla og uppeldi verði ekki aðgreind allt frá upphafi til loka grunnskóla.

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari tekur öðrum starfsmönnum fremur ábyrgð á námi nemenda sinna, þroska þeirra, líðan og velferð. Umsjónarkennari leggur sig fram um að kynnast nemendum sínum sem best, foreldrum þeirra og aðstæðum. Hann vinnur náið með þeim kennurum sem kenna nemendum í hans umsjá, safnar saman upp­lýsingum og kemur þeim áleiðis innan skóla og til foreldra í þeim tilgangi að gera foreldrum kleift að taka þátt í ákvörðunum sem varða barn þeirra og skólastarfið. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í farsælu samstarfi heimila og skóla og er megintengiliður milli skóla og heimila. (Aðalnámskrá grunnskóla)

Hlutverk leikaskólakennara

Leikskólakennari á að vera leiðandi í mótun uppeldis- og menntastarfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Hann á að vera góð fyrirmynd í starfi með börnum og leitast við að styrkja faglegt hlutverk leikskólans. Litið er á leikskólakennara sem leiðandi samverkamann barna, foreldra og annars starfsfólks leikskóla. Honum ber að sjá til þess að hvert barn sé virt að verðleikum og að námsumhverfið sé skipulagt á þann veg að börn fái notið bernsku sinnar. (Aðalnámskrá leikskóla)

Skipurit Krikaskóla má nálgast hér:

Skipurit Krikaskóla.pdf

Á hverju skólaári eru unnar starfendarannsóknir í Krikaskóla af kennurum skólans. Starfendarannsóknirnar eru mikilvægur liður í þróun skólastarfsins og í starfsþróun hvers og eins kennara. Kennarar velja samkvæmt áhugasviði sínu og leggja til við skólastjórnendur hvað tekið skal fyrir hverju sinni. Starfendarannsóknir hafa verið unnar í samstarfi fleiri en eins kennara, þær hafa einnig náð yfir fleiri en eitt skólaár. Gjarnan hafa þær orðið kveikja að endurskoðunum eða nýjum starfsháttum innan skólans.


Hér að neðan má sjá samantekt um þær starfendarannsóknir sem unnar hafa verið í Krikaskóla:

Starfendarannsóknir í KrikaskólaÞessi síða notar vafrakökur Lesa meira