logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Sókn í upplýsinga- og tæknimálum í skólum Mosfellsbæjar

01/02/2018

Sókn í upplýsinga- og tæknimálum í skólum Mosfellsbæjar

Haustið 2017 hófst vinna við að undirbúa sókn í upplýsinga- og tæknimálum í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar. Sú vinna byggir á niðurstöðum vinnu með kennurum vorið 2017 sem kölluð hefur verið Vegvísirinn. Vegvísirinn er eitt af leiðarljósum fræðslu- og frístundasviðs í þeirri umbreytingu á  tækniumhverfi grunnskólanna sem nú stendur yfir. Í Vegvísinum koma skýrt fram óskir frá kennurum um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimála skólanna.

 

Fyrstu skrefin þegar verið tekin

Forsenda tækniframfara í skólunum er fartölvuvæðing kennara og fagfólks, fjölgun spjaldtölva fyrir nemendur og að bæta tækniumhverfi skólanna almennt. 

Þann 23. janúar sl. voru stigin fyrstu skrefin í yfirstandandi sókn til eflingar upplýsinga- og tæknimála í skólum bæjarins þegar grunnskólunum voru afhentar fyrstu persónulegu fartölvurnar fyrir kennara og fagfólk.  Allir grunnskólar bæjarins munu fá nýjan tölvubúnað í ár auk þess sem spjaldtölvukostur fyrir nemendur verður aukinn í takt við stærð skólanna. Leikskólar bæjarins munu einnig taka þátt í fartölvuvæðingu skólanna. 

„Við hlustum og tökum mark á því sem við okkur er sagt. Í fjárhagsáætlun ársins í ár eru lagðar til 40 milljónir til verkefnisins sem erum umtalsverðir fjármunir.  Í dag leggjum við formlega í hann og stígum fyrstu skrefin í sókn á sviði upplýsinga- og tæknimála í skólum bæjarins. Meginforsenda þess að upplýsinga- og tæknimál séu ofarlega á baugi í skólastarfi er að starfsmenn skólanna hafi greiðan aðgang að vinnutölvum og að vinnuumhverfið sé þannig úr garði gert að tæknimál  skólanna styðji við breytta kennsluhætti og kröfur nútímans.“ sagði Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í athöfn í Varmárskóla þegar skólunum voru afhentar fartölvur og spjaldtölvur.  „ Það er stefna bæjaryfirvalda að grunnskólar bæjarins séu í fremstu röð á sviði upplýsinga- og tæknimála“  sagði Haraldur ennfremur.

 

Þrjár stoðir verkefnisins  

Verkefnið byggir á þrem stoðum. Í fyrsta lagi eflingu tæknibúnaðar skólabygginganna. Í öðru lagi að bæta aðbúnað kennara og nemenda á svið upplýsinga- og tæknimála. Og í þriðja lagi að veita stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum.

Í samstarfi við skólana verður unnið að mótun stefnu og framtíðarsýnar á sviði upplýsinga- og tæknimála. Í stefnunni verður meðal annar fjallað um kostnað og útskiptingu á tæknibúnaði,  þróunar- og nýbreytniverkefni á sviði upplýsinga- og tæknimála, samvinnu skóla og fræðslu og ráðgjöf til kennara og nemenda. 

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira